Offita og lífshættir íslendinga

By 21. október, 2015Óflokkað
Offita

Offita

Offita og ofþyngd verða sífellt algengari í öllum aldursflokkum. Borið saman við niðurstöður frá 1990 er aukningin mest í yngsta hóp karla þar sem nærri þrefalt fleiri flokkast nú yfir kjörþyngd.

Offita, fleiri karlar en konur eru yfir æskilegri þyngd.

Karlar eru hins vegar sáttari við eigin líkamsþyngd og fara síður í megrun en konur. Ranghugmyndir um eðlilega líkamsþyngd eru áberandi meðal ungs fólks, þar sem margar stúlkur vilja vera grennri en æskilegt getur talist, en ungir menn eru sáttir þótt þeir séu of þungir. Um 15% ungra kvenna á aldrinum 15- 24 ára teljast yfir æskilegri þyngd en 30% vilja vera grennri en þær eru. Fjórði hver ungur maður á sama aldri er yfir æskilegri þyngd en aðeins 13% eru ósáttir við þyngdina og vilja vera grennri. Þessi munur milli kynja kemur einnig fram í fjölda þeirra sem reyna að grennast eða fara í megrun. Þriðjungur stúlkna á aldrinum 15-24 ára fór í megrun eða reyndi að grennast síðastliðið ár en aðeins 15% karla á sama aldri. Matur er að sjálfsögðu annað og meira en samsafn mismikilvægra næringarefna. Fæðuval er hluti af lífsstíl og ekki má heldur gleyma félagslegum þætti fæðunnar og þeirri ánægju og nautn sem matur veitir í daglegu lífi. Því hefur verið haldið fram að fjölskyldumáltíðir væru á undanhaldi á íslenskum heimilum, en samkvæmt könnuninni borða um 80% fólks aðalmáltíð dagsins með fjölskyldunni 5 daga vikunnar eða oftar. Ungt fólk borðar að vísu sjaldnar heima og um 18% ungra karla segjast aðeins borða með fjölskyldunni tvisvar í viku eða jafnvel sjaldnar. Unga fólkið borðar líka mun oftar á veitingastöðum og skyndibitastöðum en þeir eldri. Ungir karlar eiga þar metið en rúmur þriðjungur þeirra borðar úti oftar en einu sinni í viku meðan aðeins 4% kvenna á miðjum aldri borða svo oft á veitinga- eða skyndibitastað. Ungt fólk borðar líka oftar tilbúna rétti og er gjarnara á að sleppa aðalmáltíð dagsins en þeir eldri. Þar eru ungu konurnar í miklum meirihluta, þriðja hver sleppir aðalmáltíðinni oftar en einu sinni í viku en aðeins tíundi hver karl á sama aldri.

Heimild: Landlæknir.is