Líkamsrækt leiðir af sér líkamlegt og andlegt hreysti. Það er að geta unnið fullan vinnudag með einbeitinguna í lagi allan tímann, að geta sinnt fjölskyldunni og áhugamálunum fullur af orku án þess að finna nokkurn tímann fyrir þreytu eða áhugaleysi. Þetta er aðeins stutt upptalning á því hvað regluleg hreyfing getur gert fyrir þig. Áður en þú byrjar að hreyfa þig er nauðsynlegt að þú gerir þér grein fyrir því hvað þú vilt fá út úr æfingunum og hver markmið þín eru með þjálfuninni.
Það má skipta líkamsrækt niður í þrjá flokka sem eru:
1. Þolþjálfun ( loftháð þjálfun) sem eykur þol og styrkir hjartað og æðakerfið.
2. Styrktarþjálfun ( loftfirrð þjálfun ) sem styrkir vöðva,vöðvafestingar og brjóskmyndun.
3. Teygjur sem eru nauðsynlegar fyrir vöðva til að minnka meiðslahættu og til að halda liðleika.
Þjálfun.is mælir með þolþjálfun 2 í viku til að byrja með og síðan 3 – 5 sinnum. Ef þú ert að hugsa um að lækka blóðþrýsting, minnka kólesteról í blóði eða minnka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum á álagið að vera á við röskan göngutúr í 30-60 mínútur 5-7 sinnum í viku. Ef þú stefnir á að auka þol töluvert og brenna fitu mælum við með því að þú vinnir á u.þ.b 65-90% af hámarkspúls 3-5 sinnum í viku í 20-40 mínútur í senn.
Þjálfun.is mælir með lyftingum 3 í viku til að byrja með og auka síðan í 4-5 sinnum. Æfingarnar skulu ekki vera styttri en 20 mín en ekki lengur en 1 klst.
Ef þér finnst þú vera stopp eftir langan tíma á sama prógrammi breyttu þá um æfingar eða endurtekningar. Alltaf að muna eftir að hita upp !!
Þjálfun.is mælir með að teygja ávallt eftir lyftingar eða þolæfingu. Teygja skal sérstaklega á þeim vöðvahópum sem notaðir voru, en fyrst skal ganga úr skugga um að vöðvinn sé slakur ( ekki lyfta og teygja strax á eftir )
Láttu líða nokkrar mínútur. Ef þú finnur fyrir einhverjum óþægindum sem teljast ekki eðlileg, skaltu hætta að æfa og hafa strax samband við lækni.
Gangi þér vel.